Ungir fréttamenn

Reykjavíkurborg og KrakkaRÚV bjóða tíu ungmennum úr 8. – 10. bekk að gerast fréttamenn á Barnamenningarhátíð í Reykjavík 25.-30. apríl. Munu fréttamennirnir flytja lifandi fréttir af viðburðum hátíðarinnar sem fluttar verða á vefnum KrakkaRÚV og á öðrum miðlum RÚV.

RÚV og Barnamenningarhátíð munu bjóða ungu fréttamönnunum upp á námskeið varðandi helstu aðferðir við fréttaflutning af menningarviðburðum og einnig veita þeim fræðslu um hátíðina sjálfa. Reynsluboltar í fréttamennsku miðla af reynslu sinni til ungu fréttamannanna og kenna þeim almennt um fréttaskrif, framsögn, viðtalstækni, internetið og öll þau tæknimál er tengjast fréttamennsku.

Á hátíðinni munu ungu fréttamennirnir fara á milli viðburða og vinna fréttir af viðburðum hennar. Markmiðið er að ungt fólk fái reynslu af fréttamennsku og að hátíðin njóta góðs af því að fluttar verði fréttir af henni út frá sjónarhorni ungmenna.