BIG BANG FESTIVAL

BIG BANG FESTIVAL

BIG BANG FESTIVAL verður haldin í Hörpu þann 21. apríl 2022 og er evrópsk tónlistarhátíð fyrir unga áheyrendur sem fá að upplifa fjölbreytta og metnaðarfulla efnisskrá er samanstendur af tónleikum, innsetningum og tónlistartengdum smiðjum undir handleiðslu fagfólks í tónlist.
Sérstök áhersla er lögð á tónlistarfólk og tónskáld sem sjá ævintýrið í tónlistarsköpun sinni og vilja leita frjórra leiða til að kynna tónlist fyrir börnum og deila með þeim sviðinu.
Nánari lýsing og markmið verkefnisins
BIG BANG er ævintýraleg evrópsk tónlistarhátíð fyrir unga áheyrendur. Markmið hátíðarinnar er að auka aðgengi barna að tónlist. Tónlistarhátíðin var stofnuð árið 2010 af sex evrópskum samstarfsaðilum. Árið 2015 hlaut hátíðin hin virtu EFFE-verðlaun sem veitt eru framúrskarandi evrópskum menningarhátíðum. Árið 2018 hlotnaðist BIG BANG fjögurra ára stuðningur á vegum Creative Europe-áætlunar Evrópusambandsins og var Barnamenningarhátið Reykjavík boðin þátttaka í verkefninu 2019.
Sérstök áhersla er lögð á að fá til leiks tónlistarfólk og tónskáld sem sjá ævintýrið í tónlistarsköpun sinni og vilja leita frjórra leiða til að gera öllum börnum kleift að sækja tónleika og eiga þar ríkulega og eftirminnilega reynslu. Einnig er sóst eftir samstarfi við aðila innan menningargeirans sem leggja kapp á að ná til nýrra áhorfenda.
Markmið BIG BANG eru:
•Að auka gæði, fagmennsku og samtal listamanna og viðburðahaldara sem koma að tónlistarviðburðum fyrir börn og ungmenni.
•Að hvetja til samtals og samstarfs milli þeirra sem starfa að listum og menningu og þeirra sem semja og flytja tónlist fyrir börn.
•Að hvetja tónlistarfólk til að semja nýja og fjölbreytta tónlist með börn í forgrunni.
•Að auðga og bæta gæði þeirrar tónlistar sem börnum er boðið upp á.
•Að móta verkefni sem þroska og þróa unga áhorfendur og hvetja börn til að fást við tónlist sem ekki er háð markaðslögmálum.
•Að þróa verkfærakistu fyrir fólk sem vinnur með tónlist og tónlistarviðburði fyrir unga áheyrendur svo það geti bætt kunnáttu sína og færni.